Ég eða það sem ég geri?

Segir frammistaðan mín endilega eitthvað um mig sem manneskju??? Ég hef gengið í gegnum ýmis tímabil í hestamennskunni minni (og ég veit fyrir víst að sama gildir um allar íþróttir) með hæðum og lægðum þegar kemur að árangri í keppni. Það sem ég vill sérstaklega nefna er þegar ég upplifi að ég er á mjög góðu róli í minni iðkun. Reiðmennskan er góð, ég æfi vel og upplifi mig á góðum stað í þjálfun og undirbúning en svo þegar á völlinn er komið er ég að tapa fyrir knöpum og hestum sem ég tel að ég eigi klárlega að vinna. Ég tel mig og minn hest betri en svo að ég eigi að tapa fyrir knöpum sem eru að vinna mig. Mér gengur vel, reiðmennskan er góð en niðurstöður á mótunum ljúga ekki. Úrslitin eru skýr. Ég er ekki að ná fram mínu besta þegar á reynir, langt því frá. Hvað veldur? Áhugavert að skoða það því ég þykist nokkuð viss um að einhverjir fleiri þekki þessa tilfinningu. Það er einkum tvennt sem ég vill nefna og hefur gjörbreytt því hvernig ég lít á þetta og hefur þar með breytt frammistöðu minni gríðarlega á stundum sem á reynir. Í fyrsta lagi: Eitt það mikilvægasta sem maður þarf að læra er að gera greinarmun á sjálfum sér og frammistöðu sinni. Það er að segja, það er algengt að fólk tengi einstaka frammistöðu við sig sem persónu. Það ”leggur sjálft sig að veði” og samtvinnar sína persónu við útkomuna. Gerir sig einfaldlega háð einhverri niðurstöðu eða úrslitum. Heimurinn hrynur fyrir manni eftir frammistöðu undir væntingum 🤷‍♂️Þetta hefur verið alveg gríðarlega mikilvæg lexía fyrir mig, að læra að halda frammistöðu minni á einu sviði algjörlega frá mér sem persónu. Í öðru lagi: Þeir sem sigra oft, eða sýna alltaf það sem öðrum þykir framúrskarandi árangur, málið er að þessir upplifa sig alls ekki þannig að þeir séu alltaf að brillera. Þvert á móti, í kannski 5 leikjum af 10 eru þeir bara frekar lélegir að eigin mati, 3 ágætir og 2 frábærir. Það sem þessir einstaklingar gera er að gera bara nóg til þess að vinna, eru ekki alltaf að elta einhverja fullkomnun sem síðan bitnar á sjálfstrausti og þeirra leik, þeir bara gera nóg til þess að vinna. Það er algengt að maður sé að eyða svakalegum tíma í að æfa atriði sem eiga að verða svo fín og flott, en gleymir heildarmyndinni á meðan. Þ.e atriði sem litlu skila þegar á hólminn er komið. Elta fullkomnun sem er svo afstæð. Þessi tvö atriði er gaman að velta fyrir sér hjá hverjum einstaklingi sem er að leggja sig fram. Skoðið það 😊

Published by Hinrik Sigurðsson

Hinrik Sigurðsson Reiðkennari og rágjafi í hugarþjálfun

Leave a Reply

%d bloggers like this: